Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, hefur sett einbýlishús sitt á Fornuströnd á Seltjarnarnesi á sölu fyrir 105 milljónir, við sjávarsíðuna á Nesinu þar sem brimið leikur við stofugluggann og Esjan hlær við í allri sinni dýrð en þarna hefur Jónas búið um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni.
Jónas er nýfluttur á Brúnaveg í Laugarásnum, í þakíbúð í byggingu í tengslum við Hrafnistu, þar sem útsýnið er ekki síðra en nýr nágranni hans á staðnum er Jóhannes Nordal fyrrum Seðlabankastjóri.
Nú snæða þeir saman í mötuneytinu á Brúnavegi, byltingarforingi íslenskrar fjölmiðlunnar á síðustu öld og umsjónarmaður velferðarinnar sem hér gekk í garð þegar Íslendingar fluttu úr torfkofum til bæja og fóru að pluma sig í evrópskum stíl – Jónas Kristjánsson og Jóhannes Nordal.
Og ef þeim líkar ekki matseðillinn geta þeir rölt saman niður á veitingastaðinn Lauga-ás sem lengi hefur verið í uppáhaldi hjá Jónasi, 200 metra, og fengið sér eitthvað annað – tveir heimsborgarar í takt.

Fallegt og afar vel hannað 242,1 fermetra einbýlishús á einni hæð (fyrir utan bílskúr) á þessum vinsæla stað á Seltjarnarnesi. Húsið sem byggt er úr sjónsteypu stendur á 1.221 fermetra eignarlóð neðst í götunni og er glæsilegt sjávarútsýni úr húsinu. Arkitektar hússins eru þeir Vilhjálmur og Helgi Hjálmarssynir. Í bílskúr sem er undir norðurenda hússins hefur verið innréttuð Stúdíóíbúð en auðvelt væri að breyta því aftur í fyrra horf.