Úr pólitísku deildinni:
—
Framáfólk í Viðreisn eru augsýnilega með böggum hildar nú þegar í ljós er komið að fréttir á eirikurjonsson.is um áform Bjarna Ben um myndun ríkisstjórnar með VG og Framsókn áttu við rök að styðjast.
Í gær komu fréttir um að formlegar viðræður væru hafnar milli Sjálfstæðisflokks og VG. Bjarni Ben veit að Sigurður Ingi og Lilja Alfreðs, formaður og varaformaður Framsóknar, bíða pollróleg á hliðarlínunni.
Benedikt í Viðreisn sem virtist halda að hann væri á góðu róli að ganga í eina sæng með Sjálfstæðisflokki virðist hafa komist í uppnám við fréttirnar um nýja viðhaldið og lýsti því yfir í frétt í gær að hann ætlaði að reyna við Frammara, enda allt heimilt í ást og stríði, jafnvel að daðra við landbúnaðarmafíuna.En hann hefur fljótlega komist að því að spenningurinn væri ekki gagnkvæmur enda hvorugur flokkurinn sterkur; annar með sjö þingmenn og hinn með átta.
Tilfinningar brjótast út í ummælum á Facebook þar sem Hanna Katrín Friðriksson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar í Reykjavík norður, tekur fram að Benedikt hafi ekki haft áhuga á samstarfi við Bjarna Ben með tengli inn á frétt á mbl.is um að Benedikt hafi afþakkað boðið. Þarna á að þurrka burt allan vafa um að Benedikt hafi verið hafður að fífli af frænda sínum.
Viðreisn er komin í sömu stöðu og í leikriti William Congreve (1670-1729) um brúðina sem uppgötvaði að hún hafði verið svikin: Hell hath no fury like a woman scorned…