Bæjarstjórn Akureyrar gerði á fundi sínum í gær alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga 2017 og furðar sig á því að þar sé ekki tekið tillit til nýrrar samgönguáætlunar. Einnig fjallaði bæjarstjórn um stöðu orkumála í Eyjafirði en að öllu óbreyttu gæti skapast neyðarástand á því sviði á næstu árum. Bókunin um samgönguáætlunina er svohljóðandi:
“Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga 2017 sem nú liggur fyrir Alþingi. Það vekur furðu að í frumvarpinu er ekki tekið tillit til nýrrar samgönguáætlunar sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 12. október sl.
Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir fjármagni frá ríkinu til kaupa á nýjum hafnsögubáti fyrir Hafnasamlag Norðurlands, þrátt fyrir að nú liggi fyrir tilboð í smíði bátsins sem búið er að samþykkja og bíður undirritunar. Ekki er heldur gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka gerð Dettifossvegar sem allir eru sammála um að sé lykilframkvæmd í uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll sem er mikilvægt verkefni vegna flugöryggis yfir Íslandi og atvinnuuppbyggingar á Akureyri.
Það er algjörlega óviðunandi að ekki sé staðið við fyrri ákvarðanir Alþingis um að fjármagna þessar framkvæmdir í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga 2017. Hér er um að ræða verkefni sem nú þegar er byrjað á og langt komin í tilboðsferli og algjörlega óásættanlegt að ekki sé tekið tillit til í frumvarpinu.”
Bæjarstjórn samþykkti bókunina með 11 samhljóða atkvæðum.