Smásalinn sendir fréttaskeyti:
—
Trúað gæti ég því að Finnur Árnason forstjóri Haga (Bónus og Hagkaup) nagi á sér handarbökin þessa dagana. Árum saman hefur hann leynt og ljóst atast í þingmönnum og álitsgjöfum um að matvöruverslunum verði leyft að selja áfengi.
Þetta mikla áhugamál forstjórans hefur þokast áfram hægt og rólega og núna gæti verið kominn nægur meirihluti fyrir því á Alþingi.
Nema að það er kominn köttur í ból bjarnar og sá hefur ekki lyft litla fingri til að koma þessu baráttumáli í gegn. Costco opnar nefnilega í Garðabænum í vor og verður allsráðandi í áfengissölunni.
Í Bandaríkjunum og Bretlandi er Costco lang umsvifamesti áfengissalinn og engin ástæða til að ætla að svo verði ekki hér. Costco er bæði með mikið úrval og slær alla aðra út í verðlagningunni.
Þeir njóta ekki alltaf eldanna sem fyrstir kveikja þá.