Aðfarir Trump í embætti forseta Bandaríkjanna eru farnar að hafa afgerandi áhrif á áhuga fólks víða um heim á að ferðast þangað. Þetta gæti komið illa við bæði Icelandair og WOW, sem byggja viðskiptamódel sitt á flugi milli Bandaríkjanna og Evrópu.
Vefsíðan Hopper.com, sem fylgist með ferðahegðun á netinu, segir að leit að flugferðum til Bandaríkjanna hafi fækkað um 17% eftir að Trump fór að standa við kosningaloforðin. Síðustu viku Obama í embætti voru 61,5 milljón leitir að flugi til Bandaríkjanna í 122 löndum sem rannsókn Hopper.com nær til. Eftir að Trump setti á tímabundið ferðabann frá sjö löndum, hrundu leitartilfellin niður í 50,9 milljónir.
Fækkunin er skiljanlega mikil frá löndum þar sem múslimar eru fjölmennir. En svo er einnig um önnur lönd. Í Danmörku, Nýja Sjálandi, Kína, Írlandi og Níkaragúa eru 30% færri sem leita að flugi til Bandaríkjanna en “fyrir Trump”.
Aftur á móti hefur orðið mikil aukning í leit að flugi til Bandaríkjanna frá Rússlandi, Kúbu og Hvíta Rússlandi. Aukningin í Rússlandi er 90%. Enda gera þeir Trump og Pútín sér far um að sýnast perluvinir.
Fækkun ferðalaga til Bandaríkjanna mun án vafa hafa neikvæð áhrif á rekstur Icelandair og WOW. Það er mikil samkeppni á flugleiðinni yfir Atlantshafið og fargjöld hafa lækkað niður úr öllu valdi. Besta leiðin fyrir flugfélögin til að hjara er að fá sem besta sætanýtingu, helst að selja hvert einasta sæti í hverju flugi. Það gæti orðið erfiðara á næstunni með færri farþegum, ekki síst ef Trump heldur áfram á núverandi vegferð og fólk hættir við öll áform um Ameríkuflug.