Úr flugskýlinu
—
Í umræðunni um versnandi afkomu Icelandair beinast öll spjót að Björgólfi Jóhannssyni forstjóra Icelandair Group og Birki Hólm Guðnasyni forstjóra Icelandair. En þeir ráða í raun ekki ferðinni.Þeir sjá bara um að framkvæma. Að baki þeim og fyrir ofan þá í valdastiganum er hálfgerður huldumaður, því hans er nánast aldrei getið í umræðunni. Og hann passar sig að láta ekkert á sér bera.
Þetta er auðvitað formaður stjórnar Icelandair Group, Sigurður Helgason fyrrverandi forstjóri Icelandair. Það er í stjórninni sem línan er lögð, stóru ákvarðanirnar teknar og þar er Sigurður aðalmaðurinn. Ekki bara hefur hann áhrif sem formaður stjórnar, heldur hafa orð hans extra mikið vægi vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem hann býr að sem forstjóri flugfélagsins í 20 ár. Sigurður er 71 árs og hætti sem forstjóri 2005.
Svo virðist sem stjórn Icelandair Group hafi sofið á verðinum undir leiðsögn Sigurðar. Icelandair hefur látið taka sig í bólinu í samkeppni á netinu við önnur flugfélög, kaup á nýjum þotum virðast ekki vel ígrunduð og illa gengur að hemja útgjaldaaukningu. Ljóst er að lífeyrissjóðirnir sem eru stærstu eigendur Icelandair og hafa kosið Sigurð sem formann stjórnar árum saman, munu losa sig við hann á næsta aðalfundi sem verður í byrjun mars.
Rætt er manna á milli að stjórn Icelandair Group hafi verið of værukær þegar Icelandair átti í hlut. Gríðarleg fjölgun ferðamanna hafi virkað eins og allt væri á uppleið hjá félaginu, meðan raunin var sú að önnur flugfélög voru að hirða til sín stærsta hluta aukningarinnar. En ekki er allt ómögulegt hjá Icelandair Group, þó svo að helsta mjólkurkýrin sé að verða geld. Rekstur Icelandair hótelanna gengur t.d. glimrandi vel.
En sofandaháttur stjórnar Icelandair Group gæti átt eftir að gleymast snarlega ef þróunin verður sú að fólk missi áhugann á því að ferðast til Bandaríkjanna vegna háttsemi Trump forseta. Þá geta lífeyrissjóðirnir afskrifað fjárfestinguna í Icelandair Group og Skúli Mogensen farið að leita sér að vinnu. Viðskiptamódel Icelandair og WOW byggist á ferðum fólks milli Bandaríkjanna og Evrópu og hvorugt félagið má við því að þeim ferðamönnum fækki verulega.
Á þessari vefsíðu kom fram í fyrradag að ferðavefurinn Hopper.com, sem fylgist með ferðahegðun á netinu, segir að leit að flugferðum til Bandaríkjanna hafi fækkað um 17% eftir að Trump fór að standa við kosningaloforðin. Síðustu viku Obama í embætti voru 61,5 milljón leitir að flugi til Bandaríkjanna í 122 löndum sem rannsókn Hopper.com nær til. Eftir að Trump setti á tímabundið ferðabann frá sjö löndum, hrundu leitartilfellin niður í 50,9 milljónir.