Að gefnu tilefni endurbirtum við hér fjögurra ára gamla frétt, frá því í mars 2014:
—-
Kona sem stal límbandsrúllu á bensínstöð í Hveragerði var í gær dæmd í mánaðarfangelsi auk þess sem henni var gert að greiða rúmlega hundrað þúsund krónur í sakarkostnað.
Það var lögreglustjórinn á Selfossi, Ólafur Helgi Kjartansson, sem gaf út ákæruna fyrir límbandsstuldinn á bensínstöðini og dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands af Sólveigu Ingadóttur.
Konan var ákærð fyrir eftirfarandi – og síðan dæmd:
—
“…fyrir tilraun til fjársvika og gripdeild með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 6. október 2013 í verslun Shell við Austurmörk í Hveragerði tekið límbandsrúllu að verðmæti kr. 599,- úr hillu verslunarinnar og rakleiðis farið að afgreiðsluborði verslunarinnar þar sem ákærða reyndi að blekkja afgreiðslumann til þess að skipta límbandsrúllunni fyrir aðra vöru í versluninni og fyrir að hafa síðan eftir að hafa verið neitað um skiptin, farið með umrædda límbandsrúllu ógreidda út úr versluninni.
Ákærða mætti við ekki við þingfestingu málsins, en lögmaður hennar hafði þá óskað eftir fresti. Ákærða mætti fyrir dóminn þann 13. mars sl., ásamt Páli Kristjánssyni hdl., sem skipaður var verjandi ákærðu að hennar ósk. Ákærða viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sek um þá háttsemi sem henni gefin að sök í ákæru.
Ákærða, A, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Ákærða greiði allan sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda ákærðu, Páls Kristjánssonar hdl., 110.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og ferðakostnaður verjanda, 13.920 krónur.”
—
Þetta mun vera dýrasta límbandsrúlla sem um getur í Hveragerði fyrr og síðar.