Í frétt um Vigdísi Hauksdóttur og nýja sósíalistaflokkinn þar sem Vigdís sá líkindi með Gunnari Smára Egilssyni og byltingarmanni á reykvísku kommúnistaplakati frá 1973 gleymdist að geta nafns höfundar plakatsins sem er Sigurður Örn Brynjólfsson skopmyndateiknari nú búsettur í Tallinn í Eistlandi. Hann teiknar undir nafninu SÖB og segir:
—
Eftir að ég kom frá framhaldsnámi í Hollandi var ég viðloðandi KSML, fékk samt ekki inngöngu (þótti of mikill enduskoðunarsinni, átti að gera sjálfsgagnrýni sem ég var ekki tilbúin að gera) en ég myndskreytti Stéttarbráttuna og teiknaði plaköt.
Þetta plakat teiknaði ég fyrir KSML 1973. Ég vann þá á Auglýsingastofu Kristinar og teiknaði plakatið þar í páskafríi. Þá voru ekki til tölvur og allt handgert í stærðinni A2 eða jafnvel stærra. Fulltrúar úr miðstjórn “flokksins” komu til að skoða verkið og gefa grænt ljós á prentun. Samkvæmt fyrirmælum miðstjórnar mátti teiknarinn nota: Rauðan og svartan lit. Rauðan fána. Hamar og sigð (rautt eða svart) Stjörnur (svartar eða rauðar) og verkamann eða konu með skarpan byltingarsinnaðan svip. Allt var í lagi hér….nema miðstjórnin hafði farið fyrr um veturinn í heimsókn til Albaníu og þar þurftu þeir að láta klippa sig á landamærunum, sítt hár var spilling kapítalista vesturlanda. Teiknarinn hafði teiknað mannin einsog venja var á þeim tima með hálfsítt hár. En miðstjórnin gaf enga vægð og teiknarinn varð því að blanda hvítan retouch lit og klippa/mála hinn byltingarsinnaða verkamann. “Snöggt í hnakkan” fyrirskipaði formaður miðstjórnar, teiknaranum tókst þó að skilja aðeins eftir.
Seinna um nótt var ég ásamt Gústa Skúla úr miðstjórn (býr núna í Svíþjóð) að líma upp plaköt i Reykjavík, þetta var bannað, og löggan kom að okkur en okkur tókst að losna við lím og plaköt en vorum samt settir í fangelsi í nokkra klukkutíma.
Þetta var allveg einsog í amerískum glæpamyndum, nema bíllinn var gömul drusla sem Gústi átti. Okkur tókst að stoppa við rusaltunnur og ég stökk útúr bílnum og kom sönnunargögnum: hveitilími burstar/kústar og afgangs plakötum fyrir í tunnunum. Bankabófar seinni tíma undir forustu Ó.Ó hefðu verið hrifnir. Við létum síðan lögguna ná okkur. Við yfirheyrslu neituðum við öllu, hvar eru sönnunargögnin? Spurðir um hveitilím á fingrum okkar höfðum við verið að betrekkja. Ég talaði hinsvegar mikið um hvað þetta væri fint, “cool” plakat. Minn signatur SÖB hafði af einhverju ástæðum horfið í prentun.