Sigurður G. Tómasson, fyrrum dagskrárstjóri Rásar 2, skrifar um hæfnismat og dómnefndir að gefnu tilefni - sjá hér.
—
Fyrir svo sem fjórðungi aldar var ég dagskrárstjóri rásar 2. Þá var venja að atkvæði væru greidd í útvarpsráði um hverja skyldi ráða í störf fréttamanna.
Svo var ekki um dagskrárgerðarmenn á rás 2. Svo var því breytt og ákveðið að svo skyldi einnig vera um þá.
Stuttu eftir þetta var auglýst eftir dagskrárgerðarfólki. Við höfðum sama hátt á og verið hafði. Lögðum lítið próf fyrir umsækjendur, skriflegt og létum svo viðkomandi taka eitt viðtal, sem tekið var upp.
Við eyddum svo nokkrum dögum í að fara yfir og meta. Komu fleiri en einn að því mati.
Þegar málið kom fyrir útvarpsráð til ákvörðunar kom ég á fund ráðsins, hafði með mér prófin, matið og prufuviðtölin. Ekki kom til þess að ég þyrfti að spila neitt eða sýna. Í útvarpsráði sat fólk svo forvitri að það þurfti ekki að hlusta neitt eða lesa og greiddi því atkvæði þegar í stað.
Við hefðum því getað sparað okkur þessa óþörfu vinnu.