Quantcast
Channel: Eiríkur Jónsson » Langar fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053

KVARTAÐ YFIR MORGUNVAKTINNI

$
0
0

“Svona er þetta og verður á meðan ég tóri í þessu. Vonandi þolanlegt,” segir Óðinn Jónsson stjórnandi Morgunvaktarinnar í Ríkisútvarpinu í svari til aldraðs hlustanda sem sendi honum eftirfarandi póst:

Sæll, ágæti Óðinn.

Mér hefur oft og mjög lengi undanfarið (nánast á hverjum morgni liggjandi í bælinu undir Morgunvaktinni að flestu leyti ágætri, þ.e. efnislega) orðið hugsað til þín og ætlað að senda póst. Samt verður ekki neitt úr neinu hjá mér frekar en endranær – fyrr en núna, þegar þú blasir við á vefnum (reyndar ekki á ruv.is heldur visir.is) og komið fram yfir miðjan dag.

Mér finnst notalegt að liggja fyrir og hlusta á útvarpið. Er orðinn það gamall að ég hlusta eingöngu á Rás eitt. Er orðinn það gamall, að ég man mætavel eftir því þegar Axel Thorsteinsson var með erlendu fréttirnar árla morguns, man auðvitað vel eftir Jóni Múla og Pétri og mörgum öðrum á fyrri tíð.

Er jafnframt orðinn það gamall (kominn á áttræðisaldur) að heyrnin er mjög farin að bila.

Notalegt að liggja fyrir og hlusta á útvarpið?

Já, ef hægt væri að skilja á milli tónlistarflutnings og talmáls.

Væntanlega plagar það ekki fólk með venjulega heyrn, en ég er að tala um morguntónleikana samtímis því sem þú talar. Fyrir fólk með mína heyrn á mínum aldri er þetta verulega óþægilegt.

Auk þess sem blessað stefið sem spilað er í sífellu er illþolandi – þ.e. hversu mjög skuli klifað á því aftur og aftur og lengi í senn með mjög óþægilegum hávaða sem veldur því að maður skrúfar niður í tækinu og gleymir síðan oft að skrúfa frá aftur.

Hvaða ofurjassistar í stuði eru þarna að verki? Er þetta impróvíserað eða hver er höfundurinn og hvað fékk/fær hann borgað fyrir þennan djöfulgang?
Kannski væru raddir Sigvalda Júlíussonar eða Brodda Broddasonar brúklegar með þessum morgunhljómleikum. En, eins og eitt sinn var sagt:

Senator, you are no Jack Kennedy.

Eða væri kannski eðlilegra og meira viðeigandi að þú syngir eða rappaðir það sem þú segir á þessum morguntónleikum?

Og hafa svo sérstakan þátt seinna dag hvern (og líka nóttina eftir) þar sem stefið áðurnefnda andskotast í klukkutíma aftur og aftur og aftur og aftur? Mætti mín vegna vera á Rás 2, ég hlusta ekki á hana.

P.s.: Mér þykir vænt um Ríkisútvarpið (eða hvað það heitir akkúrat núna) og líka þig sem eitt af bestu akkerum þess um langan aldur! Bið þig að taka galgopaháttinn í þessu ekki alvarlega – kjarninn er hins vegar mín innsta meining.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053