Í fréttum greindi Ríkisútvarpið frá því að Everest, nýjasta stórmynd Baltasar Kormáks, væri farin að skila hagnaði. Það er ekki alls kostar rétt enda segir kvikmyndasérfræðingur okkar málið flóknara en flestir haldi:
—
Varðandi frétt Ríkisútvarpsins um að Everest sé farin að skila hagnaði og tíndar til tölur í því sambandi þá er það ekki alveg rétt.
Í grófum dráttum er þetta þannig að í tilviki Everest nemur framleiðslukostnaður myndarinnar 55 milljón dollurum samkvæmt BoxOfficeMojo. Þá er ótalin markaðskostnaður myndarinnar, en algengt viðmið við markaðssetningu í Bandaríkjunum á mynd af þessari stærð er einhversstaðar á bilinu 25-30 milljónir dollara, oft um helmingur af fjárhgsáætlun, stundum meira.
Þá er ótalin markaðskostnaður alþjóðlega. Alls er því kostnaðurinn að minnsta kosti 80-85 milljón dollarar plús alþjóðlegur markaðskostnaður, sem getur einnig numið tugum milljóna dollara.
Síðan taka kvikmyndahúsin sinn hlut. Hann er breytilegur, frá 40-60%.
Stúdíóið, Universal, framleiðslufyrirtækin og fjárfestar verkefnisins eru því að fá í sinn hlut um helming af innkomu, gróflega áætlað, stundum minna og þá sérstaklega alþjóðlega. Af þeirri innkomu þarf að greiða allan kostnað.
Everest, með sínar tæpu hundrað milljónir dollara í tekjur hingað til, er því langt frá því að vera farin að skila hagnaði. Hinsvegar er vel hugsanlegt að hún geri það á endanum enda gengur hún vel í miðasölunni og eftir eru tekjur af öðrum dreifileiðum, DVD, VOD, kapalstöðvar, sjónvarp of svo framvegis.