Fréttaskeyti úr umferðinni:
Samgöngustofa er með prýðisgóðan vef þar sem hægt er að skoða óhöpp í umferðinni á landakorti. Sérstaka athygli vekur hvað mikið er um óhöpp á stórum bílastæðum t.d. við Kringluna. Flestir bílar eru jú kyrrstæðir á bílastæðum – hvers vegna öll þessi óhöpp? Jú, ein algengasta tegund umferðaróhappa er að bílstjóraklaufi bakkar á kyrrstæðan bíl.
Myndin, sem fengin ar af vef Samgöngustofu, sýnir fjölda skráðra umferðaróhappa á efra bílstæði Kringlunnar síðastliðin 15 ár. Fljótleg talning sýnir að þetta eru um 300 deplar á þessu eina stæði, einn fyrir hverja klessu.
En kannski er þetta ekkert svo svakalega mikið. Þetta eru að jafnaði ekki “nema” 20 óhöpp af þessu tagi á ári. Miðað við alla traffíkina ætti maður kannski að undrast að þau skuli ekki vera fleiri.