Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra veit oftar en ekki hvað hann syngur þó sá söngur falli “góða fólkinu” ekki alltaf í geð:
—
Hnignun ríkisútvarpsins er augljós. Þar er hvorki við fjárskort né stjórnmálaflokka að sakast. Kjarnastarfseminni hefur einfaldlega verið fórnað fyrir eitthvað annað. Æ erfiðara verður að halda uppi vörnum fyrir að skattgreiðendur standi undir úreltu bákni við miðlun lélegs efnis þegar unnt er að ná betri árangri á hagkvæmari hátt. Einkavæðing á ríkisútvarpinu er óskynsamleg undan starfseminn heldur áfram að fjara. Það á að koma á fót sjóði á borð við kvikmyndasjóð og gera mönnum fært að keppa um styrki til að framleiða metnaðarfullt, íslenskt hljóðvarps-, sjónvarps- og netmiðlaefni.
Þeir sem hlusta á rás 1 vita að þar er öll metnaðarfull nýsköpun úr sögunni. Leitast er við að halda í horfinu með flutningi á gömlu efni. Kveður svo rammt að slíkum flutningi að þess er ekki lengur getið í dagskrárkynningu frá hvaða ári viðkomandi efni er. Mætti ætla að dagskrárstjórinn skammist sín fyrir allan endurflutninginn. Nýsköpunin felst í yfirborðskenndu lausatali til kynningar á viðburðum í auglýsingaskyni og flutningi á sígildri tónlist í krafti samvinnu erlendra útvarpsstöðva – bera þeir þættir af öðru efni ásamt Hátalaranum.