Það verður tekið á því af öllum sálarkröftum á laugardagskvöldið á Kringlukránni. Stefán Hilmarsson ætlar að vera með okkur á laugardaginn og syngja sálartónlist frá sjöunda áratugnum,” segir athafna – og tónlistarmaðurinn Óttar Felix Hauksson sem lætur ekki deigan síga þó á sjötugsaldri sé.
Óttar Felix er ekki með neina smágutta með sér í hljómsveitinni Gullkistan; Gunnar Þórðarson, Jón Ólafsson og Sigfús Örn Óttarsson og svo Óttar sjálfur á ryðmagítar líkt og George forðum í Bítlunum.
“Þetta verður skemmtilegur tónlistarviðburður því Stefán Hilmarsson er ókrýndur konungur sálartónlistarinnar frá sjöunda áratugnum á Íslandi. Hann nær þessu alveg og gott betur,” segir Óttar Felix en Gullkistan verður á Kringlukránni bæði á föstudags og laugardagskvöld.