Quantcast
Channel: Eiríkur Jónsson » Langar fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053

STEINGRÍMUR Á HVERFISGÖTU

$
0
0

Steingrímur Eyfjörð bættist í listamannaflóru Hverfisgallerís á Hverfisgötu fyrr á árinu og nú er komið að einkasýningu sem opnar á laugardaginn 4. nóvember kl. 16.00 – 18.00.

Um Steingrím segir Jón Proppé listheimspekingur:

“Verk Steingríms Eyfjörð eru fyrst og fremst samtöl þar sem ólíkri reynslu og skoðunum er teflt fram og reynt að rekja í þeim þræðina. Viðfangsefnin koma úr ýmsum áttum, þræðirnir liggja víða og allt virðist eiga erindi í samtal Steingríms: Samfélagsmál, sálfræði, hindurvitni og hjávísindi, sögur, myndlist og bókmenntir. Þetta er díalektísk aðferð þar sem leitin að tengingum og skilningi er samkomulagsatriði milli ólíkra sjónarhorna frekar en að hún lúti einni, röklegri reglu. Vinnsla og frágangur verkanna virðist líka vera samræða milli ólíkra leiða og miðla. Þótt texti í einhverri mynd hafi lengi verið gegnumgangandi hefur Steingrímur líka búið til skúlptúra af ýmsu tagi og innsetningar, unnið með teiknimyndaformið, og notað bæði ljósmyndir og vídeó.Sem gestir á sýningum Steingríms göngum við inn í samræðuna.”

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er einn af okkar fremstu samtímalistamönnum og hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir listsköpun sína á Íslandi og erlendis. Steingrímur nam myndlist á Íslandi og í Hollandi og hefur í verkum sínum farið inn á merkingarsvið heimspeki, vísinda, félags- og mannfræði þar sem viðfangsefni verkanna geta verið um jafnólíka hluti og trúmál, pólitík, dægurmenningu, íslenska þjóðmenningu og sögu. Steingrímur á að baki yfir hundrað einkasýninga og samsýninga, á Íslandi og erlendis.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053