“Það var allt kreisí hér í biðröðinni fyrir og um helgina. Fólk reifst og skammaðist þannig að nú verður bara að bóka tíma hjá okkur. Næsti lausi tíminn er eftir hádegi á fimmtudaginn,” sagði starfsmaður á hjólbarðaverkstæðinu í Hátúni í Reykjavík við hlið Fíladelfíukirkjunnar.
“Þú getur líka skilið bílinn eftir og við reynum að skjóta honum inn á milli,” bætti hann við.
Sömu sögu var að segja á hjólbarðaverkstæðinu í Skipholti þarna rétt hjá:
“Aldrei séð annað eins brjálæði,” sagði verkstæðisformaðurinn og hafði vart tíma til að líta upp.
“Ætli ég bíði þá ekki bara eftir vorinu,” sagði viðskiptavinurinn með fjögur nagladekk í bílnum sem verða þar enn um sinn.