Skeyti úr neytendahorninu:
——-
Í Fréttablaðinu í dag auglýsa 5 verslanir “Black Friday” að hætti Ameríkana. En þetta er enginn “Black Friday” sem þær bjóða íslenskum neytendum, varla gráleitur föstudagur.
Almennileg “Black Friday” útsala í Norður-Ameríku fær fólk til að tryllast af æsingi, standa í biðröð tímunum saman og troðast undir inni í búðunum. Þar er verið að tala um 70-90% afslætti af vinsælum og eftirsóttum vörum.
Svartur föstudagur á Íslandi er fölsk útgáfa af þessu verslunarbrjálaæði Ameríkana. Það er verið að bjóða 25-30% afslátt, stundum 40%. Afsláttartölurnar eru bara þær sömu og þegar haldnar eru útsölur. Vörurnar sem standa til boða með þessum gráu afsláttartölum eru sjaldnast þær sem fólk sækist helst eftir, heldur gamlir lagerar, afleiðing af slæmum innkaupaákvörðunum, vörur keyptar inn til að selja á útsölu eða hreinlega eitthvað forljótt.
En sannið samt til. Nógu margir íslenskir neytendur eru nógu vitlausir til að láta plata sig til að halda að Black Friday sé eitthvað merkilegri útsala en Ljósahátíð í Húsasmiðjunni.
Og að sjálfsögðu mun Elko skipuleggja svarta platbiðröð fyrir utan eina eða tvær verslanir til að fá fávísa fjölmiðla til að stökkva um borð í lygalestina. Þeir geta auðvitað ekkert annað, Elko auglýsir svo mikið hjá þeim.