Það er veisla hjá smáfuglunum sem sest hafa að hjá Bæjarins Bestu í Tryggvagötu í snjóþyngslunum þvi þar fá þeir nóg að borða.
“Ég hendi í þá pylsubrauðum og þá með steiktum lauk í,” segir María Einarsdóttir afgreiðslukona í pylsuvagninum sem hefur tröllatrú á steikta lauknum handa smáfuglunum.
“Það kom hingað dýrafræðingur sem sagði mér að fuglarnir væru sólgnir í fituna sem er í steikta lauknum og með honum tekst þeim að byggja upp fituforða sem skiptir öllu þegar snjórinn þekur allt. Svo set ég stundum remúlaði í pyslubrauðin handa þeim og þeir eru líka spenntir fyrir því. En ekki sinnep.”