Á morgun verður haldin svokölluð „samæfing viðbragðsaðila“ á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Að þessari æfingu koma lögreglan, slökkvilið, Landsbjörg, Sjúkrahúsið á Akureyri og starfsfólk Hlíðarfjalls. Æfingin er haldin til að tryggja rétt viðbrögð við snjóflóðum sem hrundið er af stað af manna völdum og verður reynt að líkja eftir slíkum aðstæðum við jaðar skíðasvæðisins.
Æfingin mun ekki hafa nein áhrif á starfsemina á skíðasvæðinu eða trufla gesti þess. Bílafloti og mannskapur viðbragðsaðila gætu þó vakið athygli og því þykir rétt að koma því á framfæri að hér verður einungis um æfingu að ræða.