Karl Wernersson lyfsali í Lyfjum og heilsu, þekktur útrásarvíkingur, kvartar undan því í viðtali við Moggann að lyfjaverð sé of lágt hér á landi. Hann hagnast ekki nóg, lyfin halda ekki í við annað verðlag, segir hann.
Sjálfsagt vildi Karl þá ekki vera lyfsali í Svíþjóð, því þar kosta lyfin helmingi minna en hér á landi, eða ennþá minna. Á hverju skyldu sænskir lyfsalar eiginlega lifa?
Á Facebook segir Kristín Aðalsteinsdóttir frá því að Aðalsteinn Arnarson læknir sé nýfluttur til landsins frá Svíþjóð. Í ljósi frétta um þörf fyrir hækkun lyfja gerði hann verðsamanburð á lyfjum hér á landi og í Svíþjóð.
Og Aðalsteinn segist ekki geta annað en blöskrað þegar hann ber verð lyfjanna saman:
Magasýrulyf Omeprazol Actavis 20 mg 56 stk kosta m.v. gengi dagsins kr 923 í Svíþjóð og kr 2.894 á Íslandi.
Algengt sýklalyf Ciprofloxacin 500 mg 20 stk, kr 1.140 í Svíþjóð og kr 2.730 á Íslandi.
Blóðþrýstingslyf Losartan/Hydrochlorothiazide 50/12,5 mg, 98 stk kr 1.455 í Svíþjóð og kr 2.380 á Íslandi.
Lyf við húðsveppasýkingu Terbinafin Bluefish 250 mg, 98 stk kr. 2.318 í Svíþjóð og kr. ekki nema 9.381 á Íslandi.
Það er augljóst að það þarf að hækka verð á Íslandi segir Aðalsteinn – þessi 4 lyf eru bara rétt tæplega þrefalt! dýrari hér en í Svíþjóð.
Læknirinn minnir á að hver sem er getur tekið með sér íslenskan lyfseðil og leyst út lyfin sín í apóteki á hinum Norðurlöndunum.