Fréttaskeyti af Seltjarnarnesi:
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi er þekkt fyrir að ganga skörulega til verks. Nú hefur hún fyrirskipað útrýmingu skógarkerfils í bæjarfélaginu, en það er ágengt illgresi sem eyðir öllum öðrum gróðri.
Á Valhúsahæðinni, þar sem þessar myndir eru teknar með nokkurra daga millibili, má sjá afraksturinn af kerfilsbundinni slátrun starfsmanna Seltjarnarnesbæjar. Ekki er stingandi kerfilstrá eftir og þarmeð hefur þessu útivistarsvæði Seltirninga verið forðað frá illum örlögum.
Fleiri opinberir stjórnendur mættu taka sér skörungsskap Ásgerðar og Seltirninga til fyrirmyndar. Skógarkerfill veður uppi um allt land og þó að jurtin sé áferðarfalleg þá er þar flagð undir fögru skinni. Jurtafræðingar vara við þessari ágengu plöntu og segja að hún skilji ekkert eftir sig nema eyðileggingu.