Fjölmiðlafyrirtækið Hringbraut, sem verið hefur til húsa á jarðhæð Olíshússins svokallaða við Sundahöfn, hyggst flytja og koma sér fyrir til framtíðar á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi þar sem Íslandsbanki var lengst af með útibú.
Húsnæðið á Eiðistorgi er minna en þó stærra en sýnist því kjallari er undir öllu og verður hann nýttur.
Hringbraut hefur verið í sókn og vaxið verulega á síðustu misserum. Sjónvarpsstöð og vefur hafa fest sig í sessi og ný útvarpsstöð hefur vakið athygli og þá ekki síst síðdegisþáttur Þórarins Þórarinssonar, FM-Tóti, en Þórarinn þykir fara á kostum á stundum og brjóta upp núverandi hefðir í útvarpi.
Þá vekur athygli að fréttahaukurinn Sigurjón M. Egilsson er gengin til liðs við Hringbraut sem yfirmaður allra sviða í óþökk Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem var þar fyrir en Sigmundur dvelur nú í Dubai að viða að sér efni í bók um ævi flugvélasalans og milljarðamæringsins Birkis Baldurssonar sem þar býr.
Eigandi Hringbrautar, hugmyndasmiður og forstjóri er Guðmundur Örn Jóhannsson faðir fótboltakappans Jóhanns Berg Guðmundssonar sem þykir ganga Gylfa Þór Sigurðssyni mæst í færni á vellinum að frátöldum Eiði Smára.