Delta Air Lines byrjar að fljúga milli Íslands og Minneapolis á morgun, 27. maí og verður flogið daglega til septemberloka. Minneapolis bætist þar með við New York sem daglegur áfangastaður bandaríska flugfélagsins.
Með Minnaeapolis sem nýjum áfangastað er Delta að bregðast við gríðarlegum áhuga bandarískra ferðamanna á Íslandi og um leið fjölga valkostum fyrir íslenska ferðalanga vestur um haf. Alls verða 15 vikulegar flugferðir í boði með félaginu í sumar, þar af tvær á sunnudögum til New York.
„Með Minneapolis sem nýjum áfangastað mætum við vaxandi eftirspurn eftir flugi milli Bandaríkjanna og Íslands,“ segir Nat Pieper, forstjóri Delta Air Lines í Evrópu. „Þessi flugleið þýðir einnig að viðskiptavinir hafa nú val um tengiflug samdægurs til 84 áfangastaða í Norður-Ameríku með Delta gegnum New York og Minneapolis, þar á meðal til Denver og San Francisco.“
Þegar Delta hóf starfsemi hér árið 2011 voru 5 ferðir vikulega. Síðan þá hefur ferðatímabilið sífellt verið að lengjast og ferðum að fjölga. Í sumar verða um 5.900 sæti í boði í hverri viku. Delta tilkynnti jafnframt nýlega að í fyrsta sinn verður flogið allt árið til New York.
Delta hefur þá sérstöðu umfram íslensku flugfélögin að Ísland er loka áfangastaður allra farþega félagsins frá Norður-Ameríku. Flugferðir Delta eiga því umtalsverðan þátt í þeirri fjölgun ferðamanna sem átt hefur sér stað frá Norður-Ameríku, en fjöldi þeirra hefur fimmfaldast frá 2010. Samkvæmt tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar keyptu bandarískir ferðamenn vörur og þjónustu fyrir rúma 38 milljarða króna með greiðslukortum hér á landi í fyrra, til viðbótar við ferðatengda þjónustu sem þeir borguðu í heimalandinu. Hver bandarískur ferðamaður eyðir t.d. tvöfalt meiru en breskur ferðamaður, eða 160 þúsund krónum á móti 80 þúsund.
„Það er engin furða þó vinsældir Íslands meðal viðskiptavina Delta fari sívaxandi. Landið býður upp á fjölbreytta, fallega og þekkta áfangastaði og mikla afþreyingarmöguleika á öllum árstíðum
. Mmeð flugi okkar frá Minneapolis og svo allt árið frá New York mætum við þeim áhuga,“ segir Nat Pieper.
Líkt og fyrri ár er flogið milli Íslands og Bandaríkjanna með Boeing 757 þotum Delta. Wi-fi tenging við internetið er í boði á flugleiðunum, svo og afþreyingarkerfi fyrir alla farþega. Innifalið í fargjaldi eru allar máltíðir, drykkir, innritaður farangur, handfarangur og sætaval. Á Delta One lúxusfarrýminu eru svefnsæti og á Delta Comfort+ farrýminu er aukið sætabil og hægt að halla sætum helmingi meira en á almennu farrými.