“Ég ætlaði að bjóða gestum heim en þeir komast ekki. Hér verða allar götu lokaðar,” segir Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Hringbrautar en hann býr í Salahverfinu í Kópavogi, rétt neðan við Kórinn þar sem tónleikar Justin Bieber verða á morgun og hinn.
“Við hjónin erum búin að fá sérstakan bílapassa en fengum bara einn þó tveir bílar séu á heimilinu. Við komumst ekki einu sinni út í búð.”
Þessar hömlur á umferð í Kópavogi vegna tónleika Biebers eru þær mestu í manna minnum og svo flóknar að gefið hefur verið út kort sem dreift er til íbúa svo þeir átti sig á aðstæðum.
“En ég botna ekkert í þessu korti. Ég hélt kannski að ég gæti farið Elliðavatnsveginn en þar mega engir fara nema fjórir séu í bílnum plús farþegi; 4 + farþegi stendur á kortinu. Hvað þýðir það?” spyr Sigurjón í Salahverfinu sem á ekki einu sinni miða á tónleikana.