“Það hefur vaxið upp eitthvert stofnanaeftirlit, einhverjir sjálfskipaðir menn til að stýra og ritstýra blöðum nú orðið,” sagði Gunnar V. Andrésson ljósmyndari í viðtali um síðustu helgi sem vakti verðskuldaða athygli enda veit Gunnar hvað fréttaklukkan slær eftir fimmtíu ár í faginu.
Og nú bætir hann við í samtali við Eirík Jónsson: “Hér áður fyrr var dagskipunin alveg ljós. Fara út og ná í myndir og hafa texta með. Nú sitja fréttamenn bara við tölvurnar alla daga og bíða eftir tilkynningum.”
—-
Gunnar V. Andrésson og Eiríkur Jónsson voru nánir samstarfsmenn um árabil, fóru víða og lentu oftar en ekki í ævintýrum.
Til dæmis þegar þeir fóru saman í fyrstu Eurovisionkeppnina sem Íslendingar tóku þátt í en hún var haldin í Bergen og Icy-hópurinn flutti Gleðibankann sem átti að sigra allt þar til atkvæði voru talin.
Þetta var margra daga túr, myndir voru sendir úr sérstöku tæki sem Gunnar hafði í tösku en fréttir lesnar beint í gegnum síma til blaðamanns á DV sem tók niður og síðan var allt birt. Það var gerð krafa um stöðugan fréttaflutning því allt kostaði þetta sitt og útgefandinn vildi fá sem mest fyrir dagpeningana sem hann hafði skrifað út.
En stundum var ekkert að gerast og þegar blaðasnáparnir tveir, Gunnar og Eiríkur, voru á tali við Pálma Gunnarsson söngvara í Icy-hópunum hnerraði hann ofurhátt og hafði á orði að vonandi væri hann ekki að veikjast.
Forsíða DV daginn eftir með stríðsletri og mynd af Pálma: ICY MEÐ FLENSU – ÓVISSA Í BERGEN
Daginn eftir sprakk kjarnorkuverið í Tjernobil, ekki svo langt frá Bergen í Noregi, og Gunnar og Eiríkur töldu að dagar þeirra væru kannski brátt taldir. Settust þeir inn á kínverskt veitingahús og snæddu súrsætar rækjur þar til þeim var tjáð að hættan væri liðin hjá.
Svipaðar voru veitingarnar þegar þeir voru sendir í útsýnisflug til að telja og mynda leitarskip við Vestmannaeyjar en þar hafði bátur farist. Þegar í ljós kom að einn skipsverji hefði að öllum líkindum synt í land var vélinni lent í Eyjum og Gunnar og Eiríkur skildir þar eftir í diskódressi, peningalausir og sneru ekki aftur fyrr en viðtalin við Guðlaug sundkappa hafði verið náð viku seinna.
Svo ekki sé minnst á æfingarnar þegar Ólafur Ragnar Grímsson féll af hestbaki við Leirubakka í Landsveit í boði útgefanda og eiganda DV sem alltaf hafði greitt fyrir súrsætu rækjurnar hvar í heiminum sem þær höfðu verið étnar og að sjálfsögðu var Gunnar V. Andrésson líka með og myndaði allt. Félagi hans sá svo um textann líkit og svo oft áður.
Og er þá fátt eitt talið af afrekum Gunnars og Eiríks.