Nýtt líf er að færast í Ármúlann í Reykjavík sem lengi hefur liðið fyrir ofgnótt stofnana og fyrirtækja á kostnað blómlegs mannlífs en nú verður breyting á þegar Café Orange opnar í götunni.
Maðurinn á bak við Café Orange er Tómas Hilmar Ragnarz sem rekur samnefnt fyrirtæki sem sérhæfir sig í útleigu á skrifstofum og fundarherbergjum í Ármúla, þar sem kaffihúsið verður á jarðhæð, í Tryggvagötu, Skútuvogi og Skipagötu á Akureyri.
“Tómas er smekkmaður í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur, hann hefur hannað hér allt, verður með spænskan kaffiþjón og sérinnflutt rauðvín af bestu gerð,” sagði iðnaðarmaður sem var að tengja síðasa loftljósið í kaffihúsinu sem stendur nú klárt og verður opnað innan skamms þegar tilskilin leyfi hafa verið afgreidd.
Í Ármúla og næstu götum starfa þúsundir manna sem hingað til hafa helst farið í Múlakaffi til að fá sé hressingu þar sem meðal daglegra gesta eru Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, Geir Ólafs dægurlagasöngvari og hálft lögreglulið höfuðborgarinnar á kvöldvakt. Þeim öllum verður Café Orange kærkomin viðbót.
Ánægja er í Ármúla með framtakið.