Stöðumælavörður no. 104 hjá Bílastæðasjóði sýndi ótrúlegt snarræði þegar honum tókst að sekta ökumann sem lagt hafði við suðurhlið Dómkirkjunnar í þrjár mínútur á meðan hann skaust inn í Austurlandahraðlestina í Lækjargötu til að ná í þriðjudagstilboð á krydduðum kjúklingi. Atburðurinn átti sér stað klukan 21:23 í gærkvöldi og nam sektin 10.000 krónum.
Ökumanni bifreiðarinnar finnst með ólíkindum að stöðumælaverðinum hafi tekist að vinna verk sitt á svo skömmum tíma, prenta út sektarmiða, koma honum fyrir og láta sig svo hverfa. Líkt og hann hafi setið fyrir bílstjóranum í skjóli myrkurs og látið til skarar skríða á mettíma.
Þriðjudagstilboðið í Austurlandahraðlestinni fór fyrir lítið í þetta sinn.