Ragnar Tómasson, landsþekktur lögfræðingur, hefur ekki gengið heill til skógar og birt myndir af sér á samskiptasíðum á hækjum eða jafnvel í hjólastól. Ragnar er mikill orkubolti og alltaf á iði þannig að nú er bleik brugðið.
En hvað gerðist?
“Klemmdar taugar í hryggjarliðum eru ólíkindatól. Senda delluskilaboð í hægri fót um að hann sé lasinn þó hanan sé það ekki,” ssegir Ragnar og heldur áfram:
“Ég ofreyndi mig í bolvinduæfingu í World Class. Ég má ekki alltaf vera með þessi læti. En eins og Nike segir: “Easy does it” og ég er allur að koma til.”
Þrátt fyrir þetta lét Ragnar sig ekki muna um að fara með dætrum sínum á tónleika með Rod Stewart í London og skemmti sér hið besta þó í hjólastól væri:
“Það er engin smá útgerð sem fylgir svona stórstjörnum eins og Rod Stewart. Það er mikið um að vera þegar tuttugu þúsund manns eru að hópast saman á einn stað. Fleytifullar járnbrautarlestir og leigubílar í röðum. Það var kraftur í Rod. Aldurinn háði honum ekki mikið – en þó aðeins. Söng stundum úr sæti. Græjurnar eru ekki af minni sortinni. Svona tónleikar eru stór viðburðir. Minna á skuttogara við hliðina á árabát sem er að leggja net sín. Þetta er ein allsherjar upplifun. Mikið óskaplega fannst okkur gaman. Svo er eitt: Þó maður óski sér þess helst að vera frískur til fótanna og þurfa ekki hjólastól, fylgir því ákveðinn lúxus, satt að segja. Hjálparmenn fylgja manni eftir í gegnum bakdyr og að lyftum. Maður er eins og forseti. Það venst ótrúlega vel að láta snúast svona í kringum sig.”