Önnur einkasýning á verkum Magnúsar Kjartanssonar (1949-2006) í Hverfisgalleríi verður opnuð á laugardaginn og verður að teljast menningarviðburður helgarinnar.
Á sýningunni Ég var hér eru sýnd pappírsverk og skúlptúrar eftir myndlistarmanninn Magnús Kjartansson sem unnin eru á tímabilinu 1982 til 1990. Á þessum árum vann Magnús sig frá hinni vitsmunalegu hugmyndafræði módernismans aftur í einhvers konar expressjónisma þar sem frumstæð form, iðandi litir og djúpstæðar tilfinningar ráða för. Árið 1982 umbreytti Magnús bæði lífi sínu og myndlist. Þetta skeið í stormasamri ævi Magnúsar var tímabil umbreytinga. Þessu fylgdu líka mikil umbrot í myndlistinni og verkin bera þess vitni. Um leið og Magnús gekk nær sjálfum sér í myndefninu varð vinnan við myndirnar líkamlegri og handaför, jafnvel fótaför, birtast á myndunum eins og dansað hafi verið á þeim. Við finnum nálægð hans í myndunum á svipaðan hátt og við skynjum nærveru steinaldarmanna sem skildu lófaför sín eftir á hellisveggjum. Handarförin mynda þannig nýtt lag, mynd ofan á mynd, sem stundum kallast á við neðra lagið en þekur það stundum nær alveg. Verk Magnúar sem birtast á sýningunni Ég var hér eru mun persónulegri en flest af því sem hann skapaði og í þeim teflir hann fram eigin lífi og minningum saman við tákn sem flest vísa á uppgjör, kreppu og vissa lífsangist, líkt og fangað er í skúlptúrnum Innilokun (1990).
Magnús heitinn Kjartansson var meðal þeirra listamanna, sem brúuðu bilið milli formrænnar myndlistar eftirstríðsáranna – bæði óhlutbundinnar og fígúratívrar – og póstmódernískrar listar á 9. og 10. áratug liðinnar aldar. Magnús var einn af stofnendum Nýlistasafnsins undir lok 8. áratugarins og tók að auki virkan þátt í sýningarhaldi félaga sinna á hinum ýmsu sýningarstöðum, innanlands og utan. Eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands stundaði Magnús framhaldsnám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1972 til 1975, undir handleiðslu Richards Mortensen, eins þekktasta abstraktmálara Dana. Magnús var með kunnustu listamönnum landsins og hróður hans barst víða, meðal annars til Spánar, þar sem verk hans vöktu ómælda athygli og aðdáun. Árið 2014 var haldin stór yfirlitssýning á verkum Magnúsar í Listasafni Íslands sem nefndist Form, litur, likami: háspenna / lífshætta. Verk hans hafa verið notuð á nærri 50 samsýningum víðs vegar á Íslandi og Evrópu. Listaverk Magnúsar eru m.a. í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, sænsku Nóbelsakademíunnar í Stokkhólmi, Gerðarsafns, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.