Quantcast
Channel: Eiríkur Jónsson » Langar fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053

JÓN GNARR Á KÓPAVOGSHÆLI

$
0
0

Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri í Reykjavík, starfaði á Kópavogshæli sem ungur maður og hefur þetta að segja um mál málanna:

“Mér finnst ömurlegt að hugsa til þess að fólk haldi að þeir sem unnu á Kópavogshæli hafi verið einhver illmenni. Það er bara ekki rétt. Á meðan ég vann á Kópavogshælinu varð ég aldrei vitni að neinu ofbeldi gegn þeim sem þar dvöldu. Þvert á móti. Ég vann á mörgum svipuðum stofnunum á þessum tíma; Kleppi, Arnarholti og Vífilsstöðum. Svona umönnunarstörf þóttu svo mikil kvennastörf að ég var í Verkakvennafélaginu Sókn. Ég var Sóknarkona samkvæmt launaseðli. Ég minnist þessara kvenna, sem ég starfaði með, allra með mikilli hlýju og virðingu. Þetta voru yndislegar konur sem voru þolinmóðar og hjálpsamar við það fólk sem þær voru að sinna. Flestar höfðu unnið lengi á þessum stöðum. Þær fengu lúsarlaun fyrir vinnu sína og þetta þótti ekkert merkilegt starf á þeim tíma að “vinna með þroskahefta.” Ég held að drifkrafturinn í þeirra starfi hafi verið góðmennska og hugsjón, vinátta og jafnvel eðlislæg móðurtilfinning. Flestir sem voru vistaðir á svona stofnunum voru umkomulausir einstæðingar sem áttu engan að í öllum heiminum. Og þeir einu sem struku þeim um vangann, töluðu fallega við þau og fóru út í göngutúr með þeim voru þessar konur. Þessar konur voru engir gerendur í þessum ömurlega heimi heldur fórnarlömb. Og ef einhverjum líður betur með að ásaka þær þá er það bara ósanngjarnt. En kannski líður fólki bara betur með að finna sér blóraböggla til að kenna um svo að það þurfi ekki að horfast í augu við neitt annað og óþægilegra. Fyrir mér er þetta kerfislægt og kúltúrelt. Okkur er í blóð borið að dýrka hið heilbrigða, sterka og gáfaða. Andstaðan við það er hið veika, kraftlausa og barnalega. Þetta er samfélagslegt mein.

Það var mjög erfitt að fá fólk til að vinna ummönnunarstörf. Launin voru svo léleg miðað við álagið, sem var bæði sálrænt og líkamlegt. Og það endurspeglar gildismat samfélagsins. Það var samfélagsleg ábyrgð okkar allra að setja fólk á lokaðar stofnanir, fjarri byggð, og skilja það bara eftir þar, öllum gleymt. Og ef við viljum í alvörunni laga þetta þá getum við ekki dregið fólk í dilka og stillt upp “gerendum” og “fórnarlömbum” heldur þurfum við öll að horfa í eigin barm. Og nú þegar ríkið er tekið uppá því að biðjast afsökunar þá finnst mér eðlilegt að Bjarni Benediktsson biðji þessar ágætu konur líka afsökunar því þær voru líka “settar” í þessar aðstæður á ákveðin hátt. Til að hækka launin mín þá lækkaði ég starfshlutfallið mitt niðrí 50%. Það var svo mikill hörgull á starfsfólki að ég vann alveg 150% vinnu og fékk 100% í yfirvinnu. Það hefðu þessar konur aldrei gert. Og þegar launaskrifstofa ríkisins sá við þessu og setti á yfirvinnubann þá sá ég mér ekki lengur fært að vinna á Kópavogshæli. Ég hélt því til Svíþjóðar að starfa fyrir bílaframleiðandann Volvo. Ég fékk helmingi hærri laun fyrir að setja hurðir á Volvo 240 í Svíþjóð en fyrir að sinna fötluðu fólki á Íslandi.”


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053