Quantcast
Channel: Eiríkur Jónsson » Langar fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053

ALLT BRJÁLAÐ Í BARCELONA

$
0
0

Þegar Barcelonaliðið lagði Parísarliðið í gærkvöldi á undraverðan hátt sat rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð á bar í Barcelona og fylgdist með:

Það var svolítið eins og Barcelona hefði vaknað af draumi í morgun, eftir ótrúlegan sigur á París í gær, þegar Börsungum tókst hið ómögulega, ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar.

Á kaffihúsinu mínu talaði fólk um lítið annað, forsíður dagblaða lýsa hetjum og kraftaverki, og ókunnugir eru skyndilega bestu vinir. Það gildir líka um mig, en þar sem ég horfði á leikinni í gær á bar faðmaði ég einhvern bláókunnugan Spánverja þétt að mér þegar Sergi Roberto skoraði sigurmarkið.

Og þá fyrst hófst bilunin, öll borgin missti sig, bílar flautuðu, flugeldar fóru í loftið, og fólk dansaði úti á götu. Ég sá mann með hækjur dansa, svo það má kannski segja að þetta hafi verið kraftaverk, og eins og öll góð kraftaverk er það auðvitað umdeilt, en það er bara partur af leiknum.

Ég geri mér grein fyrir því að mörgum hérna er alveg sama um fótbolta, en fyrir okkur sem elskum íþróttina, þá má kannski líkja þessu við trúarbrögð. Annað hvort sér maður ljósið eða ekki. Það eina sem ég get sagt er að leikurinn í gær kenndi manni að gefast aldrei upp, að það er alltaf hægt að snúa stöðunni við, meira að segja á lokamínútunni, svo framarlega sem maður missir ekki trúna.

Þetta er Óttar M. Norðfjörð sem talar frá Barcelona.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053