Hlynur Þór Magnússon kom til Reykjavíkur utan af landi og fór í búðir:
—
Fór í Krónuna hér skammt frá rétt fyrir lokun klukkan níu og safnaði í körfu – það var dós af fiskbollum, dós af fiskbúðingi, blóðmörskeppur, rúgbrauðshnallur, lítil kókflaska. Við afgreiðsluborðið sagði ég síðan: Og maíspoka. Afgreiðslumanneskjan skildi það auðvitað ekki, þannig að ég benti á eina af mörgum auglýsingunum í búðinni, þessi var akkúrat við hliðina á henni, þar sem segir að plastpoki kosti 20 krónur en maíspoki 30 krónur. Hún hugsaði málið vel og lengi og sagði svo: Því miður uppselt. Þá labbaði ég út, sagðist ekki kaupa þetta sem hún var búin að slá inn. Og kem þar ekki meira.
Minnir mig á fyrstu nóttina mína hér í Reykjavík fyrir þremur vikum. Af vissum ástæðum ét ég aldrei neitt þann dag sem ég þarf að ferðast eitthvað. Áttaði mig svo á því þegar kom fram á nótt, að ég hefði ekkert étið frá því kvöldið áður og átti ekki neitt að éta. Tók leigubíl, bað bílstjórann að fara í næstu búð sem opin væri. Hann fór í 10/11 við Lágmúla. Mér hefur aldrei auðnast að finna yfirleitt eitt eða neitt í búðum (rétt eins og núverandi og fyrrverandi fólk í búðinni góðu á Reykhólum þekkir). Eftir nokkra leit spurði ég afgreiðslumanninn (eina starfsmanninn sem sjáanlegur var) hvar ég fyndi samlokur. Skil ekki íslensku, sagði þessi geðþekki maður. Sandwiches? sagði ég þá. Þessi ágæti maður skildi það ekki heldur. Sannarlega ekki við hann að sakast. Ég keypti þá bara eitthvert sælgætisvesen sem var við kassann.