Innan skamms kemur út ljóðabókin Blóðsól eftir Karl Th. Birgisson. Útgefandi er Herðubreið. Bókin er einungis prentuð í 300 tölusettum eintökum.
Um bókina segir Guðmundur Andri Thorsson skáld: Ferðaljóð, ástarljóð, mannlýsingar, náttúrulýsingar, svipmyndir úr mannlífinu – yrkisefnin eru margvísleg og efnistökin fjölbreytt. Þessi ljóð vitna um sterkt formskyn, hið glögga auga og gott vald á máli og myndum.
Og spennusagnahöfundurinn Árni Þórarinsson: Óvænt úr óvæntri átt og þó ekki, en beint frá hjarta sem slær óreglulega.
Dæmi:
—
(Þú I)
Hvernig þú sveiflar
hárinu
til að dylja depurðina í augunum
Hvernig þú sveiflar
augunum
til að hylja húmið í sálinni
Hvernig þú sveiflar
sálinni
til að grípa með henni gleðina
Hvernig þú sveiflar
gleðinni
til að finna fyrir lífinu
Hvernig þú sveiflar
lífinu
(Mannlýsing III)
Meðalmaður og ófríður.
Þéttholda.
Þungur í skapi.
Geðríkur.
Brosgjarn þegar óvænt hugsun finnst.
Óbilgjarn annars.
(Rauðafell)
Við dáðumst að afrísku brimi
sverfa svarta kletta
þrír vonglaðir Vopnfirðingar
einn raunsær Breiðdælingur
Dáðumst að briminu
mylja landið
grafa undan sjávarbyggðinni
Í fjarska stóð Rauðafell:
Þarna er Gunnólfsvíkurfjall
sögðu þeir kímnir
Þar sem við snerumst á hæli
sást í baksýn brimið
berja lífið niður
í rauða möl