“Þetta var alveg frábært. Næsti bær við himnaríki,” segir Jónas Kristjánson ritstjóri, frumkvöðull í umfjöllunum um neytendamál í íslenskum fjölmiðlum, en hann fór í Costco í morgun.
“Þarna voru alls konar ber og ekkert skemmt. Tómatar sem bragð var af og og epli sem lyktuðu. Það var eins og maður væri kominn aftur til 1950 þegar epli voru aðeins flutt til landsins fyrir jól og lyktuðu svo vel. Ég át eitt strax og ég kom heim og það var eplabragð af því. Íslendingar hafa allt of lengi þurft að borða bragðlaus epli.”
Jónas beið í tíu mínútur í biðröð til að fá Costco-kortið sitt en eftirleikurinn var auðveldur. Skemmtilegt flæði í gegnum verslunina þar sem allir vöruflokkar vöktu ánægju. Og bensíndælurnar átta þar sem biðraðir bílanna minntu á biðröðina fyrir utan Glaumbæ hér áður fyrr og meira að segja hjólbarðaverkstæði þar sem hægt er að fá Michelin dekk fyrir 12 þúsund krónur stykkið og þá er umfelgun innifalin sem hingað til hefur kostað sjö þúsund.
“Þetta eru allt önnur verð. Alveg dásamlegt,” segir neytendafrömuðurinn Jónas Kristjánsson.