Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður skrifar besta efnið í Morgunblaðið að minningagreinum frátöldum. Og hann tekur líka myndirnar; sannkallaður fótójúrnalisti en slíkir eru hátt skrifaðir erlendis og verðmætir fjölmiðlum. Og afgangsefnið sem Mogginn notar ekki fer beint á Facebook.
Honum tókst að smella mynd af forsetanum, ein sú besta sem sést hefur af Guðna Th. Jóhannessyni og svo kemur textinn:
“Í vesturbæ Reykjavíkur er sólarlagið fallegt. Heitu pottarnir í sundlauginni góðir og þar hittir maður skemmtilegt fólk. Á ættarmóti er góðra vina fundur. Í skranvörubúð fær maður fróðlegar bækur á 200 krónur stykkið og les jafnvel yfir sig. Lítill frændi kemur og segir að sér þyki vænt um mig. Íslendingar unnu enn einn landsleikinn í fótbolta. Og á rauðu ljósi á umferðarljósum hér í úthverfi Reykjavíkur er stoppað og þú vinkar farþeganum í aftursæti á næsta bíl. Sá brosir og veifar kankvíslega á móti – þar fer forsetinn okkar. Þetta er lífið – svona er Ísland.”