Þrjár þyrlur sátu verkefnalausar við flugskýli á Reykjavíkurflugvelli í glaða sólskini um miðjan dag á sunnudag. Líklega er þetta eitt skýrasta dæmið um þann samdrátt sem ferðaþjónustan upplifir þessa dagana vegna þess hvað gengi erlendra gjaldmiðla er orðið óhagstætt fyrir ferðamennina.
Á sólríkum sumardegi eins og í gær hafa hingað til allar útsýnisþyrlur landsins verið á ferð og flugi. Að sjá þrjár þeirra sitjandi aðgerðalausar við slíkar aðstæður boðar ekki gott.
Verðið á útsýnisfluginu hefur lítið sem ekkert hækkað í krónum. En vegna þess hvað krónan er búin að styrkjast mikið gagnvart evrunni, dollaranum og pundinu lítur út fyrir erlenda ferðamanninum eins og verðið hafi hækkað um tugi prósenta.