-
Það nötraði allt og skalf á stjórnarfundi Kynnisferða í gær (þriðjudag) og honum lauk með því að Jón Gunnstein Hjálmarsson, formaður stjórnar fyrirtækisins (og löggiltur endurskoðandi – sjá mynd), var settur af og vísað af stjórnarfundi. Helsta ástæðan mun vera bullandi óánægja með fífldjarft tilboð í aðstöðu fyrir flugrútuna við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en Jón Gunnsteinn mun hafa ráðið þessu tilboði.
Einstaklingar úr svokallaðri Engeyjarætt eiga stærstan hluta Kynnisferða, aðallega þeir Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Einar Sveinsson, bróðir Benedikts. Fyrirtækið veltir um 7 milljörðum króna á ári.
Það er ekki á hverjum degi sem stjórnarfundi í stórfyrirtæki lýkur með þvílíkum hvelli að formanni stjórnar sé nánast hent út. Líklega hefur frétt sem birtist á vefsíðunni Turisti.is í gær verið neistinn sem komst í púðurtunnuna. Fréttin fjallaði um tilboðið sem Kynnisferðir gerðu í aðstöðuna við flugstöðina. Samkvæmt ákvörðun Jóns Gunnsteins gerðu Kynnisferðir tilboð um að borga 41,2% af veltu akstursins til Isavia, sem rekur flugstöðina. Í frétt Túrista var bent á að miðað við óbreytt fargjald fengi Isavia um 1.000 kr. af hverjum farþega Kynnisferða og að tekjur Kynnisferða myndu þá lækka að sama skapi. Fram kom að Isavia gæti verið að hafa 700 milljónir króna í tekjur af þessum akstri rútufyrirtækjanna.
Framkvæmdastjóri Kynnisferða sagði í viðtali við Túrista að óumflýjanlegt væri að farmiðar myndu hækka í verði. Í fréttinni kom líka fram að þó að keppinautar Kynnisferða um akstur frá flugstöðinni verði ekki með jafn góða aðstöðu, þá geti þeir boðið miklu hagstæðari fargjöld vegna þess að aðstöðugjald þeirra verður ekki nema brot af því sem Kynnisferðir þurfa að greiða og þannig væri klippt á mögulegan ávinning Kynnisferða af ofursamningnum við Isavia.
Ljóst er að eigendur Kynnisferða líta svo á að Jón Gunnsteinn hafi samið hroðalega af sér með þessu svimandi háa hlutfallslega gjaldi sem hann bauð Isavia. Tvö önnur fyrirtæki buðu einnig í aðstöðuna við flugstöðina, Hópbílar buðu þriðjung af veltu og Gray Line bauð fjórðung af veltu. Lágmarks krafa Isavia var að fá 20% af veltunni, þannig að Jón Gunnsteinn bauð rúmlega tvöfalt betur en þurfti að lágmarki. Engin furða þó að fokið hafi í þá Engeyinga.
-