Eggert Péturson, þekktur fyrir fágætar blómamyndir sínar, er með sýningu í i8 Gallerý í Tryggvagötu sem stendur til 30. september..
Hann segir:
Ég hafði ávallt þennan sal í huga þegar ég vann verkin á sýninguna, allt frá árinu 2011. Þá hafði ég unnið mörg verk út frá landsvæðinu í kringum sumarbústað minn í Úthlíð og mest í hrauninu þar í kring. Reyndar var ég búinn að gefa út yfirlýsingu þess efnis að ég væri hættur að vinna með myndefni úr hrauninu þar. Ég hef nokkurn veginn staðið við það en þegar ég gekk lengra upp í hlíðarnar á Bjarnarfelli þá fann ég gil og skorninga sem mér fundust spennandi. Ég skoðaði gróðurinn í þeim og fann hvernig hvert þeirra hafði sinn karakter. Sumarið 2011 var ég þegar búinn að kortleggja hvert gil og ná að fanga liti, birtu og þær plöntur sem eru í hverju og einu. Alls urðu þessi verk sex talsins og tvö þeirra eru á sýningunni nú auk eins málverks sem er eins konar endurkoma í veröld hraunsins, en ekki í Úthlíð heldur í hrauninu í Herdísarvík sem er ríkt af margs konar burknum.
Ég hef lent í því þegar verið er að prenta verk mín á bók, að þá snúa þau stundum vitlaust. Ég fór í framhaldinu að hugsa hvort ég gæti ekki málað myndir sem gætu snúið hvernig sem er. Myndirnar úr giljunum eru í raun loftmyndir og í stað þess að ímynda sér að eitthvað sé upp og annað niður, þá árita ég þær á baki í hring og set inn höfuðáttirnar, norður, suður, austur og vestur. Þannig er engin ein leið rétt til að hengja upp verkið, eða til þess að nálgast það og upplifa.
Ég er í raun að búa til aðstæður til listrænnar upplifunar án þess að skipa fyrir. Í giljunum er rennsli niður hlíðina, um verkið flæðir bæði vatn og birta. Úr fjarlægð gætu verkin skilist sem landakort, þótt blómin séu í raunstærð. Ég hef í raun leyst allt saman upp og veit ekki alltaf hvort ég er að mála steininn, vatnið, blómin eða birtuna. Stærð verkanna á að geta leyft áhorfandanum að ganga inn í verkið, jafnvel láta verkið gleypa sig. Þetta er kortlagning mín á einhverjum tíma eða upplifun. Þetta er eins og ganga.
Ég vona að verk mín ljúgi ekki að neinum. Allt sem við sjáum og skynjum í náttúrunni er ferli sem á sér mest stað í höfðinu á hverjum og einum, því vil ég ekki kannast við neitt sem heitir togstreita á milli raunsæis og ímyndunarafls.
Það er skondið að mikill áhrifamaður á list mína er frekar þekktur sem grafíker en málari. Sá hét Hercules Segers og var hollenskur sautjándualdarmaður sem ég rakst fyrst á í bók þegar ég var um tólf ára gamall og hefur heillað mig æ síðan. Sagt er að hann hafi verið eftirlætislistamaður Rembrandts sem átti átta málverk eftir hann auk þess sem hann gerði tilraun til að betrumbæta eina af koparplötum hans. En í raun er ansi lítið vitað um þennan mann. Hann málaði landslag sem hann hafði aldrei séð sjálfur og það gætir í senn einhvers nútíma og ævintýraljóma í verkum hans. Um sjálfan mig get ég sagt, að ég hef sannarlega séð, þótt skil rannsóknar og hughrifa séu óljós.