Fyrir nokkrum dögum stofnaði Vilmundur Sigurðsson Facebooksíðu sem hann kallar “Er rúmið mitt að drepa mig?” Vilmundur hafði átt við óþægindi og veikindi að stríða sem engin lausn fannst á þar til hann taldi sig hafa fundið sökudólginn: Dýnan sem hann hafði sofið á í 11 ár og á kodda sem fylgdi. Ein af þessum hátæknilegu dýnum sem eru svo þéttar að þær anda ekki. Telur Vilmundur og fylgismenn hans gormadýnur snöggtum skárri.
Nú eru meðlimir Facebooksíðunnar orðnir hátt í fjögur þúsund og fjölgar með hverjum klukkutímanum sem líður. Um helgina mátti sjá heilu gámana hjá Sorpu yfirfulla af dýnum sem fólk hafði hent í kjölfar umræðunnar á Facebook (sjá mynd).
Sjálfur segir Vilmundur:
“Sérfræðingar eru búnir að leita að myglu út um allt, en gleymdu að leita í rúminu. Efla verkfræðistofa er með allskonar leiðbeiningar um myglu í húsnæði. Þar virðist ekkert minnst á myglu í dýnum og koddum. Mygla virðist aukast hratt á Íslandi. Sérfræðingar hafa ekki svör. Er einfalda svarið það, að þetta er í nýtísku heilsurúmum sem mynda meiri raka sem svo gerir það fólk viðkvæmara fyrir myglu til dæmis á vinnustöðum?”