Fyrir skömmu var sagt frá því að Ólafur Jóhannsson sóknarprestur í Grensássókn til 20 ára hefði verið ásakaður um kynferðislegt áreiti, aðallega af hálfu einnar konu, en jafnvel tveim, þrem til viðbótar.
Biskupinn sagðist ekki líða svona nokkuð á sinni vakt, svona nokkuð hvað? Ásakanirnar?
Upplýst var að aðalkvörtunin hefði komið frá konu í sókn Ólafs, um að hann hafi kysst hana á kinnina og klappað henni á bakið.
Og biskupinn brást hart við. Sendi séra Ólaf í frí og setti séra Maríu Ágústsdóttur í hans stað 21. september.
Væntanlega er einhver rannsókn í gangi, en sóknarbörn séra Ólafs hitta nú fyrir Maríu í stað Ólafs.
Það sem vantar í þessar fréttir er að konan sem kvartaði er Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur og forstjóri Útfararstofu kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, en eiginmaður hennar er séra Sigurður Árni Þórðarson í Hallgrímskirkju, áður Neskirkju. Sigurður Árni og Ólafur hafa verið meðal leikenda í leikritunum um völd innan Þjóðkirkjunnar.
“Ég kýs að tjá mig ekki um þetta mál,” segir Elín Sigrún Jónsdóttir.