Napóleon fer yfir Alpana er titill á olíumálverki eftir franska listmálarann Jacques-Louis David, málað á árunum 1801-1805. Hestur Napóleons hét Marengo og var af arabísku stóðhestakyni, aðeins 145 cm á hæð, áreiðanlegur, traustur og djarfur enda bar hann húsbónda í gegnum marga hildina. Málverkið af Napóleon á hestinum Marengo er næstum eins og guðdómleg staðfesting á valdi hans
Hvaða langferð er Sigmundur Davíð að leggja í á hvítum, prjónandi hesti? Og afhverju er hann ekki á baki eins og Napóleon? Er það vegna þess að hann er líkari víkingnum Göngu-Hrólfi, sem var of þungur fyrir hestinn sinn? Það er hugsanlega ekkert verra því arfleið Göngu-Hrólfs sem réðst inn í Normandí í Frakklandi seint á 9. öld, lagði svæðið undir sig og varð þar jarl en hann og eftirmenn hans byggðu upp mjög skilvirkt stjórnkerfi sem hafði víðtæk áhrif þegar fram liðu stundir.
Eða er fyrirmyndin kannski enn eldri: Atli húnakonungur, sem réðst inn í Rómaveldi vestanvert, barbarinn sjálfur og fékk öllu sínu framgengt, þótt hann næði ekki yfirráðum í sjálfri Róm.
Hesturinn góði endurspeglar þá ætlan formanns Miðflokksins, að hafa úrslitaáhrif um hvernig ríkisstjórn verður skipuð eftir kosningarnar 28. október næstkomandi. Merkið er vísbending um það að formaðurinn er að leggja í langferð yfir fjöll og firnindi þar sem lokaáfanginn eru yfirráð íslenska ríkisins sem er um margt í svipuðu hrun-ástandi og Rómaveldi hið forna.