Margrétt Tryggvadóttir, fyrrum alþingiskona, ræðir við listamanninn Nikhil Nathan Kirsh sem opnar sýningu í Gallerí Fold á laugardaginn en listamaðurinn, sem er frá London, hefur verið búsettur hér á landi síðustu árin.
Margrét segir:
—
Ég fékk að skoða myndirnar sem verða á sýningunni og spjalla við listamanninn á vinnustofunni hans. Þar hefur hann raðað upp átta stórum og áhrifamiklum myndum.
En hvernig er heiti sýningarinnar tilkomið? Nikhil segist kalla myndaröðina á sýningunni Endurfæðingu því fyrsta málverkið í röðinni varð til út frá hugmyndinni um fæðingu trúðar og er myndin tileinkuð þeirri hugmynd. Trúðurinn er kunnuglegt þema í myndlist Nikhils. „Að vera trúður er að vera sáttur við ófullkomleikann í sjálfum sér og verkum sínum og óhræddur við niðurstöðuna, hver sem hún verður.“
Nikhil segist alltaf lenda í örlítilli krísu þegar hann klárar sýningu. Þá byrjar hann aftur með hreint borð og veltir fyrir sér næstu myndaröð. Í því felst mikið frelsi en einnig áskorun. Hann segist hafa mikla þörf fyrir að vera sífellt að endurnýja sig og endurskapa sem listamann. „Við erum öll, alltaf að endurfæðast,“ segir hann og bendir á að hver einasta manneskja geti endurskilgreint sig og breytt sér aftur og aftur. Hver fruma í líkamanum endurnýjar sig á sjö ára fresti. Eftir sjö ár erum við því efnislega gjörólíkar manneskjur. Hugurinn er svo enn öflugri og síbreytilegri.
Nikhil segir mér að hann hafi heimsótt spákonu hér á landi. Slíkt væri ekki viðurkennt í hans heimalandi en hér á Íslandi virðast margir opnari fyrir slíku og hann hafi slegið til og prófað. Hún benti honum á að mála meira frá hjartanu og hann ákvað að taka hana á orðinu og einbeita sér að því. Þótt höfundareinkenni hans sem málara séu sterk er nálgun hans á þessari sýningu mjög frábrugðin þeirri síðustu. Þar málaði hann afsteypur af líkamshlutum sem hann hafði steypt af sjálfum sér og fólki nákomnu sér. Yfir þeirri sýningu var mikil ró og myndirnar nálguðust fullkomnun í einfaldleika sínum. Á þessari sýningu er meiri hreyfing, sterkari litir og meira líf. Myndirnar eru óræðnari og bjóða upp á margbreytilega túlkun. Með breyttri nálgun reynir hann að brjótast undan fullkomnunaráráttunni og þörfinni fyrir að vera einstakur og sérstakur.
Nikhil segir mér að hann nálgist strigann með öðrum hætti nú. Engin niðurstaða sé fyrirfram gefin eins og á síðustu sýningu heldur byrji hann bara að mála og reyni að hlusta eftir mýkri rödd hjartans og láta hana leiða sig áfram. Gefa með hjartanu í stað þess að fullkomna tækni og form. Hann reyni að læra að treysta innsæinu og hlusta á lægri raddir hugans en ekki bara þær sterkustu. Þaðan fer hann inn á ókannaðar lendur hvers striga og leyfir hverri mynd að þróast á eigin forsendum. „Ég veit alltaf hvenær myndin er tilbúin. Þangað til held ég áfram að glíma við strigann. Örlögin eru fólgin í striganum.“
—-
Sýningin verður opnuð kl. 14 laugardaginn 4. júlí n.k. og stendur til 18. júlí. Allir eru hjartanlega velkomnir á opnun sýningarinnar.