Var á Snorrabrautinni á leið í Sundhöllina með kálfakjöt, rjóma og tómata í aftursætinu á nýja Benzinum og konuna malandi af ánægju í framsætinu enda kvöldverðarveisla í vændum.
Þá hvellsprakk á hægra afturdekki og rétt tókst að renna bílnum upp að Domus Medica þar sem eina ljósatýran kom frá hraðbanka í vegg. Vonlaus staða. Ekki fer maður sjálfur að skipta um dekk á leið í veislu?
Stutta útgáfan er þessi:
Hringdi í Vöku þar sem bjargvætturinn sjálfur svaraði og gaf eftirfarandi skipanir: Farið þið hjónin í Sundhöllina, stutt að fara, og þegar þið komið upp úr er ég mættur og bjarga þessu.
Og það gekk eftir. Hann kom eins og himnasending út úr myrkrinu á trukki eins og þeim sem notaðir eru til að flytja tíu smábíla frá Veróna til Mílanó í bíómyndum, losaði dekkið næstum með einu handtaki og smellti varadekkinu undir með öðru. Svo kvaddi hann.
Sá mest eftir að hafa ekki boðið honum í kálfasteikina í rjómasósunni sem var frábær tveimur tímum á eftir áætlun. Man það næst.