Svavar Gestsson, fyrrum ráðherra, skrifar ritdóm um nýja bók félaga síns, Árna Bergmann, og Heimir Már Pétursson, fréttamaður og félagi þeirra beggja, er ánægður með ritdóminn eins og sjá má:
—
Gaman af þessum ritdómi. Þekki bæði bókarhöfund og gagnrýnanda. Vann aldrei með Svavari á blaðinu en átti ljúfmennið Árna sem ritstjóra og Elías Mar sem prófarkarlesara. Ekki dónalegt það.
Ég kom á Þjóðviljann í febrúar 1988, var samferða ÓRG úr stjórnmálafræðinni þegar hann fór í ráðherrastól.
Mér var m.a. falið mikið trúnaðarstarf sem var algert hernaðarleyndarmál á ritstjórninni og var uppsagnarsök ef upplýst var. Ég skrifaði Skúm sem gat verið mjög eitraður í garð fjármálaráðherrans sem var og er með spéhræddari mönnum.
Oft hringdi formaðurinn og fjármálaráðherrann í þá Sáfa fréttastjóra, Mörð eða Árna og gerði sér upp ýmis erindi þegar erindið var í raun að fá uppgefið hvaða kvikindi skrifaði Skúm. Hann fékk aldrei að vita það.
Standard svar var að það vissi eiginlega enginn. Þetta kæmi utan ritstjórnar.
Mikið fannst mér gaman þegar ég sat fyrir framan minn gamla prófessor inn á skrifstofu fjármálaráðherra til að taka við hann langt viðhafnarviðtal í helgarblaðið. Hann hafði rétt boðið mér sæti þegar hann spurði: Hver skrifar eiginlega þennan Skúm, hann er illkvittinn og grefur undan forystunni, vildi fjármálaráðherrann meina.
Formaðurinn fékk standard svar og ég bætti við: Ef ég vissi það og segði þér það yrði ég rekinn.
Árin á Þjóðviljanum voru góð og þar fékk ég visst framhaldsnám hjá mörgu góðu fólki, ekki hvað síst Árna Bergmann. Lestur bóka hans er allt viðhöfn og þessi nýjasta er konfekt.
“Vinir mínir hommarnir” er fjörlega skrifaður kafli en er líka dýrmætt innlegg í sögu samkynhneigðra á Íslandi sem er óskrifuð þótt til séu tætlur hér og þar.
Takk SG fyrir þennan ritdóm um bók vinar okkar.