Þar til fyrir skömmu seldu verslanir tvær tegundir af ferskum appelsínusafa, Trópí og Sól. Það var hörku verðsamkeppni, lítrinn kostaði 370-380 kr. í lágverðsbúðum.
Svo hætti Trópí allt í einu að fást og það var bara til ferskur appelsínusafi frá Sól í 0,8 lítra umbúðum. Svo hætti hann að sjást og unnendur alvöru appelsínusafa fóru að örvænta.
En svo kom Sólarsafinn aftur í búðir fyrir viku og núna í gömlu 1 lítra umbúðunum. Nema hvað lítraverðið hafði hækkað í 435 kr. þar sem safinn fannst ódýrastur. Hækkun um 15%.
Er nokkur furða þó neytendur fái óþægilega á tilfinninguna að verðið hefði ekki hækkað ef enn væri samkeppni á þessum markaði?
Ekki síður vakna spurningar um það hvort hitt fyrirtækið hafi fengið einokunarstöðu á einhverju öðru í staðinn?