Leikkonan Vigdís Hrefna Pálsdóttir er í aðalhlutverki þegar Þjóðleikhúsið rær á ný mið með leikritinu Hleyptu þeim rétta inn sem frumsýnt verður fimmtudaginn 25. febrúar. Leikritið er byggt á þekktri hrollvekju og bíómynd Let the right one in eftir John Ajvide Lundquist, sem sló í gegn í Evrópu og var endurgerð í Hollywood.
Leikritið hefur farið sigurför um heiminn og verið sett upp á West End og Brodway. Það fjallar um 12 ára dreng sem lagður er í einelti en líf hans breytist þegar vampíra flytur í næstu íbúð.
Hleyptu þeim rétta inn mætti lýsa sem hrollvekjandi ástarsögu og er engu til sparað í uppsetningunni – leikstjóri er Selma Björnsdóttir, Högni Egilsson hefur samið nýja tónlist fyrir sýninguna og björgunarsveitarmenn og sérfræðingar í áhættuleik hafa aðstoðað við sviðsetningu á ákveðnum atriðum sýningarinnar þar sem blóðið flæðir og vampíran Elí leikur lausum hala.