
Vettvangur viðskiptanna. Verið er að kaupa upp húsið til vinstri af hótelhöldurum í byggingunni til hægri.
Uppkaup á íbúðum í miðbæ Reykjavíkur til hótelreksturs heldur áfram. Nú síðast hefur fjárfestingafélagið Gamma keypt tvær hæðir í stórhýsi við Óðinstorg, gegnt Hótel Óðninsvé, en Gammar reka það hótel.
Eftir stendur þá í uppkeyptu húseigninni kaffihús á jarðhæð og íbúðin á efstu hæð þar sem hjón á besta aldri búa og eru ekkert á förum. Þau hafa orðið vör við umtalsverðan áhuga Gamma á íbúðinni og eftirleikurinn spurning um verð.
Hugmyndin með kaupunum er að nýta umrædda byggingu sem viðbót við hótelið.
Fjárfestingafélagið Gamma á og rekur nokkrar fasteignir í miðbænum og ber ekki að rugla saman við GMA management, fjármálaveldið í Túngötu, sem einnig gengur undir nafninu Gamma svona dags daglega.