Steini pípari (Icerock) sendir fréttaskeyti með mynd og segir:
—
Það hefur verið sátt í þjóðfélaginu um að finna hóflega málamiðlunarleið milli virkjana og verndar. Því miður nær þessi sátt aðeins til virkjana og þrátt fyrir hana geta menn þráttað endalaust um málið.
Það að hola niður snyrtilegri byggingu og lóni fyrir virkjun er minniháttar inngrip miðað við það að eyðileggja náttúru Mývatns sem er einstök í heiminum.
Þegar er búið að eyða kúluskít og fleiri tegundir eru að drepast. Þessi eyðilegging er fyrir hreint slugs sveitarstjórnarinnar. Verk eða verkleysi þeirra er glæpur gegn íslenskri náttúru. Affall af vaxandi byggð og hótel uppbyggingu er látið fara út í vatnið með sápu, bakteríum og þeim næringarefnum sem því fylgir.
Það þyrfti að vera ákvæði í íslenskum lögum sem heimilaði að stinga mönnum sem bera ábyrgð á slíkum skaða í steininn. Þeir sleppa eins og tortólafólkið vegna skorts á refsiákvæði.
Ég veit sem pípari að það er hægt að hafa lokað frárennsliskerfi sem kæmu þessum málum í lag. Þegar frárennslismálum er komið í lag getum við séð hversu mikil áhrif stafa af öðrum breytum.
Hvað sem vísindamenn segja þá getur ekki verið óskaðlegt að demba öllum saur og sápum frá vaxandi ferðamönnum út í vatnið.