Þann 11. júní verður Geysisdagurinn haldinn hátíðlegur í fimmta sinn. Klúbburinn Geysir stendur fyrir deginum, en klúbburinn er fyrir fólk sem á eða átt hefur við geðræn veikindi að stríða.
Geysisdagurinn er fjáröflunar-, skemmti- og fjölskyldudagur, þar sem í boði verður karnivalstemmning og fjör; nytjamarkaður og 92 metra ÖRÞON með frjálsri aðferð – allt í Skipholtinu sem verður lokað að hluta á meðan á öllu stendur.
Hljómsveitin Kiðlingarnir án Kela mun leika nokkur lög, Karlotta Sigurðardóttir syngur og leikur á hljómborð og Silla Jónsdóttir syngur og leikur á gítar. Veitingar verða seldar til styrktar Geysi, grill og óvæntar skemmtilegar uppákomur.
Með ÖRÞONINU er hugmyndin að gera öllum kleift að taka þátt í gjörningi sem byggir á getuhvers og eins. Við erum ekki öll steypt í sama mótið heldur erum við ólík og höfum ólíka sýn á lífið. Þess vegna hvetjum við þátttakendur til að njóta sín í fjölbreytninni. Örþonið verður ræst kl. 13.00.
Skráning er hafin og kostar 1.000 kr.
Klúbburinn Geysir starfar eftir hugmyndafræði Fountain House sem byggir á því að efla hæfileika og styrk einstaklingsins. Með því að gefa hverjum og einum tækifæri til að nýta sínar sterku hliðar þjálfast viðkomandi til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu.
Gildi Klúbbsins Geysis: virðing – víðsýni – vinátta – samvinna – samræður – samhljómur.
Við bjóðum velkomna þá sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða, til að vinna uppbyggilegt starf á jafningjagrundvelli með það að markmiði að auka samfélagslega þátttöku og efla lífsgæði, með því að vera öruggur samastaður, bjóða upp á fjölbreytt verkefni, efla sjálfstraust, veita stuðning í námi og atvinnuleit ásamt því að bjóða tímabundin atvinnutækifæri.
Í störfum innan Klúbbsins Geysis er lögð áhersla á stuðning og virðingu fyrir félögum. Engar kvaðir eru lagðar á félaga umfram það sem hver og einn er tilbúinn til að gangast undir. Lögð er áhersla á jákvæða athygli og horft á styrkleika hvers og eins.
Öll vinna félaga í klúbbnum er sjálfboðin.