Steina pípara er heitt í hamsi og sendir myndskeyti:
—
Stjórnmálamenn slá oft um sig með ýmsum þjóðhagsstærðum. Kaupmáttur hefur aukist um á þriðja tug prósenta? Að þeirra mati er það fyrir þeirra ágæti en þegar illa gengur eru það utanaðkomandi atriði sem valda því. Staðreyndin er þessi. Samkvæmt mati Seðlabankans er það olíuverð sem heldur verðbólgu niðri þó laun hafi hækkað. Það þýðir aftur að meðalverð vara og þjónustu hefur ekki hækkað jafnt og launin. Ef við tökum olíuna út þá er bullandi verðbólga. Vörur sem verkamaðurinn kaupir sem á ekki bíl hafa allar hækkað a.m.k. til jafns við kaupið. Nú fer olíuverð hækkandi og þá verður það öðrum að kenna að kaupmáttur minnkar.
Önnur svona bábilja er að skuldir heimilanna hafi lækkað. Það er ekki að undra þegar stór hluti þjóðarinnar missti allt sitt og getur ekki skuldað af því það á ekki hús til að veðsetja. Húsin sem voru tekin af fólki voru veðsett fyrir tugi milljarða og allar skuldirnar felldar niður. Sumt af þessu fólki var komið yfir miðjan aldur og missti allt sitt. Það er læst í okurleigu og nær ekki að eignast neitt það sem eftir er ævinnar. Það var e.t.v. hársbreidd eða duttlungar lánastofnana sem réðu hvort menn héldu eða misstu. Þeir sem héldu sínum eignum hafa notið þess að þær hafa hækkað í verði og nú eiga þeir höfuðstól í formi þeirrar eignar sem eykst næstu árin og þeir fara ekki eignarlausir inn í ellina. Þannig verður til meðaltal sem stjórnmálamenn geta stært sig af. Skuldir heimilanna eru að megin hluta húsnæðisskuldir. Lækkandi skuldir þýða að fleiri eru háðir ótryggum leigjendum með húsnæði.